Í vatninu er best að barnið sé í þéttum nærbuxum án bleyju. Buxurnar þurfa að geta haldið við mögulegt „óhapp“ og þurfa því að halda vel að rassi og lærum þó þær blotni.

Barn sem farið er að skríða og þaðan af eldra verður helst að vera í sokkum sem ekki renna á gólfi. Barnið er í sokkunum í lauginni.

Hafið alltaf tvö handklæði fyrir barnið, eitt til að sveipa um barnið fyrir sund og eftir að það er búið í lauginni, hitt er notað eftir sturtu. Ekki er nauðsynlegt að láta barnið í sturtu fyrir sund. Ungabarn sem er baðað daglega er ekki sveitt eða óhreint.

Þið foreldrarnir þurfið að sjálfsögðu að þvo ykkur fyrir sund. Ágæt regla er að afklæða sig fyrst og barnið á eftir og öfugt þegar farið er upp úr. Ágætt er að nota ilmlausa olíu eða rakakrem til að bera á barnið eftir hvern tíma.

Börnin geta verið óupplögð í eitt skipti eða svo. Gætið þess að pína þau ekki til að halda út tímann. Barn sem grætur þegar það kemur ofan í eða er óvenju rellið er ekki hægt að gera sömu kröfur til og þegar allt er í lagi.

Börnin geta ekki komið í sund ef þau hafa niðurgang eða hita. Það hefur ekki sýnt sig að börn sem stunda ungbarnasund fái frekar í eyru en önnur börn. Ef barn er með í eyrum eða kvef er óhætt að mæta í sundið svo framarlega barnið sé hitalaust. Það sem skiptir mestu máli er að koma í veg fyrir snögg umskipti á hita og kulda. M.ö.o. við þurfum að gefa börnunum tíma til að jafna sig, sérstaklega eftir sundið.

Farið aldrei ofan í laugina fyrr en þið fáið leyfi.

(Þessi texti var lauslega þýddur og staðfærður af Ágústu Guðmarsdóttur sjúkraþjálfara eftir pésanum: „Babysvømming – en vannlek for barnefamilien“, sem Norges Livredningsselskap hefur gefið út)