Hitinn í lauginni er 32-33°C. Æskilegt er að baðvatnið heima sé ekki allt of heitt svo að viðbrigðin verði ekki of mikil, þegar komið er í sundlaugina.

Farið gjarnan í bað með barninu. Til að undirbúa barnið er gott að láta vatn renna niður andlit barnsins. Barnið getur legið á fótleggjum foreldris, með höfuðið á hnjám þess. Þá snýr barnið beint að foreldri og hallar höfði fram, þannig að vatn rennur beint niður og frá andliti þess. Teljið síðan 1-2-3, blásið framan í barnið og þá dregur barnið inn andann. Eftir það andar barnið frá sér og þá látið þið vatn seytla yfir andlit þess. Hægt er að telja og blása nokkrum sinnum án þess að hella yfir barnið á meðan þið eruð að átta ykkur á viðbrögðum barnsins. Gerið þetta aðeins 1-3 sinnum í hvert sinn, sem baðað er.

Prófið aldrei að setja barnið á kaf áður en þið komið á námskeiðið. Það er alveg bannað að setja börn í kaf í baðkarinu heima aðeins má framkvæma köfun í laugum.