Brýnt er að barnið sé vel sofið og mett þegar það kemur í ungbarnasundið. Þreytt og svangt barn unir sér ekki í vatninu.
Reynið ávallt að gefa ykkur góðan tíma fyrir sundtímann. Stress við að komast til og frá sundstaðnum, hefur mikil áhrif á barnið. Þetta er tíminn þeirra með foreldrum sínum og til að nýta hann sem best er nauðsynlegt að áætla ríflegan tíma svo barnið njóti þess.
Við erum að sækjast eftir vellíðan, einbeitingu og rólegheitum hjá barninu og því er undirbúningur fyrir hvern sundtíma nauðsynlegur. Það er mikilvægt að byrja rólega svo barnið verði öruggt í þessu umhverfi. Talið við barnið og hrósið því oft og vel.
Athugið að sprautudagar gætu verið óheppilegir sunddagar, fer samt eftir líðan barnsins. Börnin eru pirruð, þó þau séu ekki með hita. Hugið því að þeim dögum í tíma. Möguleiki á að vera að breyta um sprautudag hjá heilsugæslunni.