Börn allt niður í fjögurra mánaða geta staðið óstudd hafi þau fengið rétta örvun og æfingar. Þetta herma niðurstöður rannsóknar Hermundar Sigmundssonar, prófessors í taugasálfræði við Vísinda- og tækniháskólann í Þrándheimi í Noregi og prófessors við íþróttafræðisvið Háskólans í Reykjavík. Rannsóknirnar voru gerðar á íslenskum ungabörnum og hafa vakið mikla athygli. Niðurstöðurnar voru nýverið birtar í virtu vísindatímariti.
Rannsóknina gerðu Hermundur og samstarfsmenn hans í samráði við Snorra Magnússon, íþróttakennara og þroskaþjálfa, sem hefur starfað við sundkennslu ungbarna í hátt í þrjátíu ár.
Að sögn Hermundar er það viðtekin kenning um þroska ungbarna að þau geti ekki staðið í fæturna fyrr en um níu mánaða aldurinn. Með aðferðum Snorra skapast taugatengingar fyrr en ella sem gera barninu kleift að standa. „Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að með því að skapa taugatengingar snemma geta börn gert hluti fyrr en hingað til hefur verið talið. Á það við um aðrar athafnir? Það er stóra spurningin sem við viljum leita svara við,“ segir Hermundur.
Sundkennsla ungra barna hefur margþætt og góð áhrif á hreyfigetuna auk annars þroska. Nú staðfesta þessar rannsóknir enn frekar að með sundþjálfun ungbarna byggir líkaminn upp tengingar sem hraða hreyfiþroskanum enn frekar. Bókaðu tíma á námskeið fyrir barnið þitt og upplifðu þroskann í verki.